José Mourinho upplýsti í viðtali við portúgalskt dagblað í dag að hann hefði grátið þegar hann kvaddi leikmenn Chelsea í síðustu viku eftir að hann lét þar af störfum sem knattspyrnustjóri. Hann kveðst hinsvegar bera höfðuðið hátt og telji sig enn vera "einstakan", eins og þegar hann kom til liðs við Chelsea fyrir rúmum þremur árum.
Mourinho kallaði sig "Hinn einstaka,", eða "Special One" strax við komuna til Chelsea, og hann telur að sú yfirlýsing sé enn í fullu gildi.
„Ég tók áhættu með því að segja að ég væri einstakur en ég held að núna séu ansi margir tilbúnir til að skrifa uppá það," sagði Mourinho við dagblaðið Maisfutebol í heimalandi sínu.
„Ég tel að ég sé enn einstakur. Ég náði góðum árangri og þetta var stórkostlegur kafli í lífi mínu. Ég reyni að gleyma því neikvæða og muna muna jákvæðu hlutina, sem eru óteljandi."
Mourinho sagði að samband sitt við leikmenn og stuðningsmenn Chelsea hefði verið engu líkt. „Já, ég grét. Ég segi alltaf að ég eigi fjölskyldu heima og aðra fjölskyldu í vinnunni. Ég hef alltaf átt ástríkt samband við leikmennina og stuðningsmennina. Ég gleymi þeim ekki og þeir gleyma mér ekki.
Stuðningsmenn Chelsea fóru aldrei grátandi af Stamford Bridge meðan ég var þar við völd því við töpuðum aldrei. Við slógum met og daginn sem Chelsea tapar á heimavelli munu þeir minnast þess að við töpuðum ekki einum einasta deildaleik í þrjú ár.
Í Englandi er venjan sú að breyta ekki til. Alex Ferguson var í ein þrjú ár með Manchester United án þess að vinna titil, og hann er enn þar í starfi. Arsene Wenger hjá Arsenal er á sínu þriðja ári án titils og hann er ekki á förum. Ef stuðningsmenn Chelsea réðu, væri ég með 20 ára samning. Fólkinu líkar við mig og samskipti mín við það voru frábær," sagði José Mourinho.