Enska dagblaðið Daily Mail fullyrðir að John Terry, fyrirliði Chelsea og enska landsliðsins, eigi yfir höfði sér kæru frá enska knattspyrnusambandinu fyrir að reyna að hrifsa rauða spjaldið af Mike Dean dómara í leiknum gegn Manchester United á sunnudaginn.
Þegar John Obi Mikel, miðjumaður Chelsea, fékk rauða spjaldið á 32. mínútu virtist sem Terry reyndi að hrifsa spjaldið af Dean dómara og Daily Mail segir að Dean hafi látið þess getið í skýrslu sinni til aganefndar.
Blaðið segir að Steve Clarke, aðstoðarstjóri Chelsea, gæti líka lent í vandræðum þar sem hann hafi átt hörð orðaskipti við Dean dómara í hálfleik. Chelsea hefur áfrýjað rauða spjaldinu sem Mikel fékk og Avram Grant knattspyrnustjóri sagði eftir leikinn að Manchester United hefði fengið öll vafaatriði með sér í leiknum, rauða spjaldið á Mikel, fyrra mark United, vítaspyrnuna sem færði United seinna markið, auk þess sem Wayne Rooney hefði sloppið við brottrekstsur.