Chelsea vísaði í dag á bug fregnum um að Marco van Basten yrði líklega næsti knattspyrnustjóri þar á bæ. Hollenska knattspyrnusambandið sagði að engar fyrirspyrnir hefðu borist frá Chelsea varðandi van Basten sem er landsliðsþjálfari Hollands.
Í yfirlýsingu Chelsea segir: „Chelsea hafnar algjörlega fregnum um að starf knattspyrnustjóra hafi verið boðið einhverjum öðrum en Avaram Grant. Engum hjá Chelsea hefur verið gefið leyfi til að ræða um stöðuna við nokkurn mann, hvorki af stjórn né eiganda. Allar getgátur um að áætlunum eða skipulagi hjá félaginu hafi verið breytt vegna þrýstings frá leikmönnum eru úr lausu lofti gripnar. BBC hafði samband við hollenska knattspyrnusambandið og fékk þau svör frá talsmanni þess, Anja van Ginhoven, að Chelsea hefði ekki falast eftir van Basten.
„Van Basten mun ræða við hollenska knattspyrnusambandið í árslok um hvort hann semji að nýju eða hætti eftir úrslitakeppni EM 2008. Þetta eru tómar vangaveltur sem byggjast á því að Van Basten var staddur í Manchester um síðustu helgi til að hitta markvörðinn Edwin van der Sar. Hann sat mjög nálægt herra Abramovich á vellinum, sem var algjör tilviljun," sagði van Ginhoven.