Van Basten orðaður við Chelsea

Marco van Basten er orðaður við Chelsea.
Marco van Basten er orðaður við Chelsea. Reuters

Marco van Basten, einn snjallasti knattspyrnumaður Hollendinga á sínum tíma og núverandi landsliðsþjálfari þeirra, er orðaður við stöðu knattspyrnustjóra Chelsea. Það er Fabio Capello, fyrrum þjálfari Real Madrid, sem fullyrðir að Chelsea hafi augastað á van Basten.

Þetta er allavega haft eftir Capello í enska dagblaðinu The Sun í dag, hversu áreiðanlegt sem það svo er. Þar kveðst Capello vita að Frank Arnesen, hinn danski yfirmaður tæknimála hjá Chelsea, hafi mælt með van Basten við eiganda félagsins, Roman Abramovich.

„Arnesen vill að van Basten taki við liðinu og hefur þegar mælt með honum við Abramovich. Frank og Marco þekkjast vel í gegnum hollenska fótboltann," sagði Capello.

Van Basten er bundinn hollenska knattspyrnusambandinu, allavega til loka undankeppni EM, sem lýkur 21. nóvember. Avram Grant tók við sem knattspyrnustjóri Chelsea af José Mourinho í síðustu viku en háværar raddir eru um að það sé bara bráðabirgðaráðning á meðan leitað sé að framtíðarstjóra félagsins.

Chelsea hefur ekkert gefið út um hvort einhverjar takmarkanir séu á ráðningu Grants, sem hefur ekki tilskilin þjálfararéttindi til að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni og er á 12 vikna undanþágu til að verða sér úti um þau.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert