Guus Hiddink, hinn hollenski þjálfari rússneska landsliðsins í knattspyrnu, segir í samtali við enska dagblaðið Daily Express í dag að Roman Abramovich, eigandi Chelsea, hafi rætt við sig um möguleikana á því að hann tæki við sem knattspyrnustjóri hjá Chelsea.
Abramovich er í miklum tengslum við rússneska knattspyrnusambandið og margir fullyrða að hann sjái að stórum hluta um að greiða laun Hiddinks. Hollendingurinn sagði að Abramovich hefði spurt sig hvort hann vildi snúa aftur í að stjórna félagsliði.
„Abramovich spurði mig hvað ég vildi gera. Ég sagði honum að á þessari stundu vildi ég bara einbeita mér að rússneska landsliðinu. Ég vil ljúka þessu verkefni og sjá til hvað gerist. Okkur líkar vel að búa í Moskvu og Rússunum virðist líka við okkur. Hér er ákveðin vinna komin af stað og þeir vilja að ég verði hér áfram í tvö ár eftir Evrópukeppnina," sagði Hiddink.
Undankeppni EM lýkur 21. nóvember og það skýrist væntanlega ekki fyrr en þá hvort Rússar komast í úrslitakeppnina næsta sumar. Þeir eru í hörkubaráttu við Króata, Englendinga og Ísraelsmenn um tvö sæti á EM.