Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, ætlar ekki að útiloka Avram Grant frá því að stjórna liði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, enda þótt óvissa sé með stöðu hans vegna þjálfunarmenntunar. Grant er sem stendur á 12 vikna undanþágu sem knattspyrnustjóri Chelsea en hann er ekki með tilskilin réttindi samkvæmt reglum úrvalsdeildarinnar.
„Við bíðum eftir niðurstöðu í viðræðum á milli Chelsea, ísraelska knattspyrnusambandsins og ensku úrvalsdeildarinnar, en af okkar hálfu stendur ekki til að setja hann í bann eða beita öðrum refsingum," sagði talsmaður UEFA við BBC í dag.
Hann sagði ennfremur að UEFA myndi aðeins skoða mál Grants ef enska úrvalsdeildin sendi formlega kvörtun vegna skorts Ísraelans á þjálfararéttindum.
Grant hefur ekki þjálfað í fimm ár en hann stýrði félagsliðum í Ísrael og landsliði þjóðar sinnar með mjög góðum árangri um árabil. Til að stjórna liði í ensku úrvalsdeildinni þarf svokallaða "UEFA Pro Licence" þjálfaragráðu, sem vanalega tekur eitt ár að ávinna sér. Dæmi eru um undanþágur, Glenn Roeder var veitt slík af heilsufarsástæðum og Gareth Southgate vegna þess að hann fór beint úr því að spila og í að stjórna liði Middlesbrough. Þá fékk Martin O'Neill undanþágu til að taka við liði Aston Villa.