Curbishley spenntur fyrir nýjum sóknardúett

Craig Bellamy fagnar marki með West Ham ásamt Lee Bowyer …
Craig Bellamy fagnar marki með West Ham ásamt Lee Bowyer og Hayden Mullins. Reuters

Alan Curbishley knattspyrnustjóri West Ham stefnir að því að tefla þeim Dean Ashton og Craig Bellamy upp í fremstu víglínu gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á morgun og segir að það sé afar spennandi kostur sem sóknardúett liðsins númer eitt í vetur.

Ashton missti af öllu síðasta tímabili en hefur skorað í þeim þremur leikjum sem hann hefur spilað með West Ham á þessu tímabili og Bellamy, sem kom til West Ham frá Liverpool í sumar, hefur verið frá í síðustu leikjum vegna tognunar í læri.

„Við byrjuðum tímabilið með Bobby Zamora og Bellamy frammi, og síðasta leik voru það Carlton Cole og Ashton, og nú vonast ég eftir því að geta loksins verið með Bellamy og Ashton saman í fremstu víglínu," sagði Curbishley.

Lið hans náði að sigra Arsenal í báðum leikjum liðanna síðasta vetur, þrátt fyrir að það væri í grimmilegri fallbaráttu. Curbishley segir að leikurinn við Arsenal verði prófsteinn á sína menn en Arsenal hefur byrjað tímabilið frábærlega og trónir á toppi úrvalsdeildarinnar.

„Byrjunin hjá þeim er stórkostleg og ég horfði á þá í leiknum við Newcastle í deildabikarnum á þriðjudag þar sem þeir gerðu níu breytingar á byrjunarliðinu. Hópurinn hjá þeim er magnaður. þetta er alvöruleikur, með frábærri stemmningu, og allir hlakka til. Það sem hægt er að fullyrða um leikmenn Arsenal er að þeir koma og spila sinn leik. Það verður erfitt að kljást við þá því þetta er algjört topplið, en við bíðum og sjáum hvað setur. Þetta er risaleikur en við þurfum að standa undir því," sagði Curbishley.

Leikur liðanna hefst kl. 14.00 á Upton Park á morgun, laugardag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert