Ulrike Muschaweck, þýskur skurðlæknir sem skar Michael Owen upp á dögunum, telur að hann eigi alla möguleika á að spila með enska landsliðinu í knattspyrnu gegn Eistlandi og Rússlandi í undankeppni Evrópumótsins 13. og 17. október.
Owen fór í aðgerð á magavöðva, til að koma í veg fyrir kviðslit og hefur sjálfur sagt að það væri hæpið að ná leikjunum. Sú þýska er á annarri skoðun.
„Eftir svona aðgerð á hann að vera kominn á fulla ferð eftir 10-12 daga, í mesta lagi 14 daga. Hann byrjar að æfa á mánudag eða þriðjudag og bætir við sig daglega, og eftir 8-10 daga verður hann orðinn alheill. Ég vona og býst við því að hann geti spilað með enska landsliðinu," sagði Ulrike Muschaweck við BBC.