Sven Göran Eriksson knattspyrnustjóri Manchester City hefur gefið skýr skilaboð til annarra liða í úrvalsdeildinni um að lið hans muni bara verða betra þegar á líður tímabilsins en lærisveinar Eriksson hafa byrjað leiktíðina vel og eru í þriðja sæti deildarinnar.
Byrjun Manchester City á leiktíðinni er sú besta í 37 ár og eftir 3:1 sigur liðsins á Newcastle um síðustu helgi er Eriksson fullviss um að meira og betra sé í vændum hjá alþjóðlega liði sínu.
,,Liðið á bara eftir að verða betra. Því meira sem leikmennirnir æfa og spila saman því betra verður liðið. Leikmennirnir eru ungir og hungraðir og nýju eigendur félagsins hafa komið með ferska vinda. Ef við höldum áfram að spila af sama krafti þá er ég viss um að þetta verður frábært tímabil," segir Eriksson í viðtali við breska blaðið The Sun.