Bernie Ecclestone hinn nýji eigandi enska 1. deildarliðsins QPR staðfesti við breska fjölmiðla í dag að félagið eigi í viðræðum við Ítalann Gianluca Vialli um að taka við knattspyrnustjórastarfi hjá liðinu í stað John Gregory sem rekinn var í gær.
Ecclestone, sem er þekktur í fomúlu 1 bransanum, sagði að meðeigandi sinn, Flavio Briastore, hafi rætt við Vialli en í síðustu viku var Vialli sterklega orðaður við QPR þar sem sást til hans á leik með liðinu ásamt því að hann og Briastore eru góðir vinir.
Hvorki hefur gengið né rekið hjá QPR en liðið situr eitt á botni 1. deildarinnar með aðeins 3 stig eftir sjö leiki.
Vialli lék með Chelsea á árunum 1996 til 1999 en tók síðan við knattspyrnustjórastarfi hjá félaginu og stýrði því frá 1998-2000. Þaðan lá leið hans til Watford þar sem hann var við stjórnvölinn í tvö ár.