Arsenal er komið í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á nýjan leik eftir sigur á nýliðum Sunderland, 3:2, í bráðfjörugum leik á Emirates leikvanginum í London í dag. Robin van Persie skoraði tvö markanna og gerði sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok.
Arsenal er þá með 22 stig eftir 8 leiki en Manchester United er í öðru sæti með 20 stig eftir 9 leiki.
Robin van Persie skoraði stórglæsilegt mark fyrir Arsenal, beint úr aukaspyrnu, strax á 7. mínútu. Hann þrumaði knettinum óverjandi í þverslána og inn, 1:0.
Miðvörðurinn Philippe Senderos kom Arsenal í 2:0 á 14. mínútu með lausu skoti úr miðjum vítateig eftir sendingu Emmanuels Adebayors frá hægri.
Abou Diaby skoraði fyrir Arsenal á 19. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu, sem virtist samkvæmt sjónvarpsmyndum vera rangur dómur.
Sunderland komst inní leikinn á ný á 25. mínútu þegar Ross Wallace skoraði, 2:1, eftir að Manuel Almunia markvörður Arsenal hafði varið frá Kenwyne Jones úr dauðafæri.
Sunderland hóf síðan seinni hálfleikinn á glæsilegan hátt því strax á 48. mínútu jafnaði Jones metin með skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri.
Eftir þunga sókn náði Robin van Persie að koma Arsenal í 3:2 á 80. mínútu með laglegu marki eftir fallega sókn og sendingu frá Theo Walcott.
Það reyndist sigurmark leiksins en ekki síðasta atvikið því á 90. mínútu var Paul McShane, leikmaður Sunderland, rekinn af velli fyrir að brjóta illa á Aleksandr Hleb.