Eggert hefur áhyggjur af Ljungberg

Freddie Ljungberg er tæpur fyrir leik Svía gegn Norður-Írum.
Freddie Ljungberg er tæpur fyrir leik Svía gegn Norður-Írum. Reuters

Eggert Magnússon, stjórnarformaður West Ham, sagði við netútgáfu Aftonbladet í Svíþjóð í dag að hann hefði áhyggjur af því að Freddie Ljungberg, leikmaður West Ham, myndi spila með Svíum gegn Norður-Írlandi annað kvöld, þrátt fyrir meiðsli. Eggert sagði að Ljungberg yrði að vera skynsamur og hugsa líka um sitt félagslið.

"Ef hann getur ekki æft vegna meiðslanna, á hann ekki að spila. Hann getur ekki spilað með West Ham ef hann er meiddur og það er félagsliðið sem greiðir launin hans," sagði Eggert við Aftonbladet.

Ljungberg hefur sagt sjálfur að hann vilji gera allt til að vera með í leiknum en hann glímir við eymsli í rifbeini og tognun í ökkla.

"Ég treysti Freddie til að vera það mikill atvinnumaður að hann viti sín takmörk, hvenær hann eigi að spila og hvenær ekki. Við verðum að treysta hver öðrum, sænsku læknarnir taka endanlega ákvörðun. Við höfum átt góð samskipti við þá og ég vona að það verði ekki sett of mikil pressa á Freddie," sagði Eggert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert