Ryan Giggs hefur gert nýjan eins árs samning við Englandsmeistara Manchester United og er Walesverjinn þar með samningsbundinn félaginu til loka tímabilsins 2009. Giggs er 33 ára gamall sem hefur verið í herbúðum Manchester-liðsins frá 14 ára aldri og lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu árið 1991.
Giggs er orðin goðsögn hjá Manchester United en þessi frábæri leikmaður hefur orðið Englandsmeistari níu sinnum með liðinu, hefur unnið bikarinn fjórum sinnum, deildabikarinn í tvígang og Meistaradeildina tímabilið 1999.
,,Fyrir utan einstaka hæfileika þá hefur framkoma hans verið til einstaklega góð og hann er frábær fyrirmynd fyrir unga leikmenn,. Ég er viss um að hann á eftir að verða hjá félaginu í mörg ár til viðbótar" segir Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United.
Giggs hefur alla burði til að skrá sig í metabækurnar hjá Manchester United. Stutt er í að hann slái leikjamet Sir Bobby Charlton sem lék 759 leiki fyrir félagið en Giggs hefur þegar leikið 727 leiki með liðinu.
,,Ég er mjög ánægður að hafa gert nýjan samning. Ég hef sjaldan eða aldrei haft meira gaman af því að spila og ég vona að ég geti spilað fyrir Manchester United eins lengi og ég get. Ég vil þakka Sir Alex Ferguson, stuðningsmönnunum og öllum hjá félaginu þann mikla stuðning sem ég fengið í gegnum árin," segir Giggs á vef Manchester United.