Benítez sakar Lescott um leikaraskap

Steven Gerrard hleypur inná völlinn í leikslok og fagnar með …
Steven Gerrard hleypur inná völlinn í leikslok og fagnar með Jamie Carragher. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði við Sky eftir sigurinn á Everton í dag, 2:1, að úrslitin hefðu verið sanngjörn. Hann gaf í skyn að Jolean Lescott, varnarmaður Everton, hefði látið sig detta til að reyna að fá vítaspyrnu á síðustu andartökum leiksins, enda þótt augljóst virtist af sjónvarpsmyndum að brotið hefði verið á honum.

"Ég held að þetta hafi verið sanngjarnt, Everton kýldi boltanum fram en við reyndum að spila fótbolta. Við reyndum að sækja og skapa okkur færi með því að spila boltanum með jörðunni. Þeir reyndu mikið af löngum sendingum og vildu halda boltanum sem mest í loftinu, svo þetta var erfitt," sagði Benítez.

Hann gaf lítið fyrir kröfur Everton um að fá vítaspyrnu í lokin en Jamie Carragher virtist þá toga Jolean Lescott niður á markteig Liverpool. "Þetta kom mér á óvart því Englendingar vilja yfirleitt ekki sjá leikmenn reyna að fiska vítaspyrnur," svaraði Spánverjinn spurningu um þetta atvik.

Það kom verulega á óvart þegar Benítez tók fyrirliðann Steven Gerrard af velli á 70. mínútu, í stöðunni 1:1, en hann hafði leikið mjög  vel og krækti m.a. í fyrri vítaspyrnu liðsins. "Í fótboltanum þarf maður stundum að nota höfuðið en við lékum með hjartanu. Við þurftum að leggja áherslu á að halda boltanum og spila," sagði Benítez.

Hann setti Braslíumanninn Lucas Leiva inná fyrir Gerrard og það bar árangur á síðustu mínútu leiksins. Lucas átti þá skot að marki Everton, Phil Neville varði með hendi á marklínu og Dirk Kuyt skoraði sigurmarkið, 2:1, úr vítaspyrnunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert