Ferguson: Okkar besti leikur á tímabilinu

Markaskorararnir Gabriel Agbonlahor og Wayne Rooney eigast við í leiknum …
Markaskorararnir Gabriel Agbonlahor og Wayne Rooney eigast við í leiknum í dag. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði eftir sigurinn á Aston Villa, 4:1, í ensku úrvalsdeildinni í dag að þetta hefði líklega verið besti leikur liðsins á tímabilinu en hann fór fram á Villa Park, heimavelli Aston Villa.

 "Þetta var hreint frábær frammistaða, líklega sú besta á tímabilinu. Fyrri hálfleikurinn var sérstaklega frábær. Það hafa verið ákveðin vonbrigði að skora ekki meira af mörkum en við höfum gert til þessa, sem hefur komið mér í opna skjöldu, miðað við þá leikmenn sem við höfum yfir að ráða. Reyndar misstu bæði Tévez og Anderson af undirbúningstímabilinu.

Ég tel að brottrekstrarnir hafi ekki haft áhrif á úrslit leiksins en vissulega gerðu þeir okkur auðveldar fyrir í seinni hálfleiknum," sagði Ferguson en tveir leikmenn Aston Villa voru reknir af velli.

Manchester United mætir Dynamo Kiev á útivelli í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn. "Það er stórleikur. Evrópuleikir eru alltaf sérstakir og við förum þangað í góðu formi en þetta er ekki auðveldur útivöllur," sagði Ferguson.

Wayne Rooney skoraði tvö marka United í dag en missti af þrennunni þegar Stuart Taylor, varamarkvörður Villa, varði frá honum vítaspyrnu. Ryan Giggs skoraði eitt mark og eitt var sjálfsmark. Gabriel Agbonlahor kom Villa yfir snemma í leiknum en United var komið í 3:1 fyrir hlé. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert