Liverpool vann Everton á tveimur vítaspyrnum

Dirk Kuyt fagnar ásamt Javier Mascherano og Yossi Benayoun eftir …
Dirk Kuyt fagnar ásamt Javier Mascherano og Yossi Benayoun eftir að hafa jafnað úr vítaspyrnunni gegn Everton. Reuters

Liverpool sigraði Everton, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, í nágrannaslag á Goodison Park. Sami Hyypiä, varnarmaður Liverpool, skoraði sjálfsmark og kom Everton yfir en Dirk Kuyt svaraði fyrir Liverpool úr tveimur vítaspyrnum, sú síðari kom í uppbótartíma. Tveir leikmenn Everton voru reknir af velli.

Liverpool er enn taplaust í deildinni og komst með sigrinum í þriðja sætið með 19 stig eins og Manchester City, sem tekur á móti Birmingham í dag.

Everton náði forystunni á 38. mínútu. Eftir aukaspyrnu og atgang í vítateig Liverpool sendi Sami Hyypiä, finnski varnarmaðurinn, boltann í eigið mark, skaut í stöng og inn þegar hann ætlaði að hreinsa frá markinu. Staðan 1:0 í hálfleik.

Á 52. mínútu fékk Liverpool vítaspyrnu þegar Tony Hibbert braut á Steven Gerrard sem var sloppinn innfyrir vörn Everton og inní vítateiginn. Hibbert fékk rauða spjaldið. Dirk Kuyt tók vítaspyrnuna og skoraði af öryggi, 1:1.

Þegar ein mínúta var komin framyfir leiktímann fékk Liverpool aðra vítaspyrnu og Everton annað rautt spjald. Lucas Leiva átti þá skot að marki eftir þunga sókn en Phil Neville varði með tilþrifum á marklínunni. Hann var rekinn af velli og Kuyt skoraði aftur úr vítaspyrnu en engu munaði að Tim Howard næði að verja, 1:2.

Á síðustu andartökum leiksins vildu níu leikmenn Everton fá vítaspyrnu og höfðu mikið til síns máls. Jamie Carragher braut þá augljóslega á Jolean Lescott á markteig Liverpool, reif hann hreinlega niður, en Mark Clattenburg dómari lét sér fátt um finnast og flautað leikinn af nokkrum sekúndum síðar.

Lið Everton: Howard, Hibbert, Yobo, Stubbs, Lescott, Arteta, Jagielka, Neville, Osman, Yakubu, Anichebe.
Varamenn: Wessels, Baines, McFadden, Pienaar, Carsley.

Lið Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypiä, Riise, Gerrard, Mascherano, Sissoko, Benayoun, Voronin, Kuyt.
Varamenn: Itandje, Crouch, Pennant, Babel, Lucas.

José Reina markvörður Liverpool horfir á eftir boltanum í netið …
José Reina markvörður Liverpool horfir á eftir boltanum í netið eftir að félagi hans, Sami Hyypiä gerði sjálfsmark. Ayegbeni Yakubu fagnar en Hyypiä horfir á, lengst til hægri. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert