West Ham lagði Sunderland að velli, 3:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Carlton Cole og Craig Bellamy skoruðu fyrir West Ham og eitt markanna var sjálfsmark en Kenwyne Jones gerði mark Sunderland.
West Ham lyfti sér upp um eitt sæti, upp í það tíunda, með þessum sigri en Sunderland er í sextánda sætinu með 8 stig.
Strax á 9. mínútu skallaði Carlton Cole boltann í mark Sunderland af markteig eftir góða fyrirgjöf norður-írska bakvarðarins George McCartney frá vinstri, 1:0.
Kenwyne Jones jafnaði metin fyrir Sunderland á 52. mínútu með hörkuskalla, 1:1. West Ham slapp síðan með skrekkinn á 58. mínútu þegar Grant Leadbitter átti þrumuskot í innanverða stöngina á marki liðsins.
Nolberto Solano kom inná sem varamaður hjá West Ham og gjörbreytti leiknum. Á 78. mínútu átti hann hörkuskot að marki Sunderland, boltinn small í stönginni og þeyttist þaðan í Craig Gordon markvörð og í netið, 2:1. Sjálfsmark en Solano átti allan heiður af því.
Þegar ein mínúta var komin framyfir leiktímann komst Luis Boa Morte að endamörkum vinstra megin og sendi boltann út á Craig Bellamy sem innsiglaði sigur West Ham, 3:1.