David Beckham og félagar í LA Galaxy voru slegnir út úr úrslitakeppninni í bandarísku knattspyrnunni í nótt þegar þeir töpuðu 1:0 fyrir Chicago Fire. Þar með eru sex mánuðir í næsta mótsleik hjá Beckham því keppni í MLS-deildinni hefst ekki aftur fyrr en í apríl.
Beckham hefur verið fjarverandi lengi vegna meiðsla en hann lék í rúman hálftíma í nótt sem varamaður. Hann vonast eftir því að komast aftur í enska landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Króatíu þann 21. nóvember.
"Ég veit ekki hvað ég á að taka mér fyrir hendur, ég vil æfa daglega og hef aldrei tekið mér meira en þriggja vikna sumarfrí. Ég mun halda áfram að æfa og halda mér í formi," sagði Beckham en hann neitaði á dögunum fregnum um að hann væri jafnvel á leiðinni til Englands sem lánsmaður hjá liði í úrvalsdeildinni.
Hann á þó eitt verkefni fyrir höndum með LA Galaxy en liðið fer í keppnisferð til Ástralíu í lok nóvember.