Lehmann gefur Wenger viðvörun

Jens Lehmann ætlar ekki að gufa upp úr markinu hjá …
Jens Lehmann ætlar ekki að gufa upp úr markinu hjá Arsenal. Reuters

Jens Lehmann, þýski landsliðsmarkvörðurinn, virðist ekki ætla að sætta sig við að sitja lengi á varamannabekknum hjá Arsenal, eða uppi í stúku. Hann sendi Arsene Wenger knattspyrnustjóra viðvörun í dag.

Lehmann var mistækur í byrjun tímabilsins og meiddist í kjölfarið. Manuel Almunia tók stöðu hans og hefur staðið sig það vel að Wenger er ekki á því að hleypa Lehmann aftur í markið í bili, enda þótt Þjóðverjinn sé orðinn heill heilsu.

"Það er mín skoðun, og ég beini henni að mínum ágæta stjóra, að það er ekki rétt að niðurlægja menn lengi. Svo gæti farið að ég yrði einn góðan veðurdag tilbúinn til að gera málið opinbert í heild sinni," sagði Lehmann við þýsku sjónvarpsstöðina Premiere.

Lehmann var ekki í leikmannahópi Arsenal gegn Bolton á laugardaginn, Almunia var áfram í markinu og hinn pólski Lukasz Fabianski sat á varamannabekknum.

"Ég læt þetta yfir mig ganga í augnablikinu, það er hluti niðurlægingarinnar, en ég er leikmaður Arsenal og mun ekki gufa upp án þess að nokkur taki eftir því," sagði Lehmann og kveðst ekki skilja yfirlýsingar Wengers um að hann sé með þrjá heimsklassa markverði í sínum röðum.

"Einn þeirra er sjálfsagt ég. Hafa hinir tveir sannað sig með því að vinna titla? Þegar ég hugsa mig um, minnist ég þess ekki. Sennilega eru menn samt taldir í heimsklassa í dag, án þess. En ég er viss um að ég kem aftur í markið fljótlega. Almunia hefur ekki sýnt að hann geti unnið leiki fyrir okkur. Ég hef upplifað þetta áður og veit hvers krafist er af markvörðum. Ég get ekki ímyndað mér að hann höndli það," sagði Jens Lehmann, kokhraustur að vanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert