Steve Staunton var í kvöld sagt upp störfum sem landsliðsþjálfari Íra í knattspyrnu. Staunton, sem lék um árabil með Írum, tók við þjálfun landsliðsins af Brian Kerr í janúar 2006 en eftir dapra frammistöðu liðins í undankeppni Evrópumótsins var ákveðið á neyðarfundi hjá stjórn írska knattspyrnusambandsins að segja Staunton upp.
David O'Leary fyrrum knattspyrnustjóri Leeds og Aston Villa og Liam Brady sem á árum áður gerði garðinn frægan með liði Arsenal þykja koma sterklega til greina sem eftirmenn Staunton en hans síðasti leikur með Íra var gegn Kýpur í síðustu viku þar sem jafntefli varð niðurstaðan.
Írar eru í þriðja sæti í sínum riðli. Þeir hafa 16 stig en Tékkar og Þjóðverjar sem hafa tryggt sér keppnisréttinn í úrslitakeppninni hafa 23 stig.