Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, hefur skorað á samherja sína að sýna sama baráttuandann og í nágrannaslagnum við Everton síðasta laugardag þegar þeir mæta Besiktas í Tyrklandi í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Liverpool þarf nauðsynlega á sigri að halda í Istanbúl en liðið er aðeins með eitt stig eftir tvo leiki og ef þrjú stig nást ekki í kvöld verður mjög tvísýnt um hvort Liverpool komist áfram úr riðlakeppninni.
"Við þurfum nákvæmlega sömu stemmninguna og í leiknum við Everton. Við vitum að þetta verður gífurlega erfiður leikur þar sem Besiktas er í sömu stöðu og við og þarf á öllum stigunum að halda. Ég veit að það verður spennuþrungið andrúmsloft á vellinum og tyrkneskir áhorfendur eru alltaf mjög líflegir en við verðum tilbúnir til að fást við það," sagði Gerrard við staðarblaðið Liverpool Echo.
Útlit er fyrir að Xabi Alonso leiki sinn fyrsta leik síðan hann brákaði ristarbein fyrir fimm vikum og yrði þá við hlið Gerrards á miðjunni. Peter Crouch gæti komið inní liðið þar sem Fernando Torres er meiddur og varð eftir heima.