Rooney: Frábært að spila með Tévez

Carlos Tévez og Wayne Rooney fagna marki Rooneys í gærkvöld.
Carlos Tévez og Wayne Rooney fagna marki Rooneys í gærkvöld. Reuters

Wayne Rooney, leikmaður Manchester United og enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að það sé frábært að spila með Carlos Tévez í fremstu víglínu hjá United.  Rooney er farinn að skora mörk á ný eftir erfitt gengi uppvið markið undanfarna mánuði.

 Rooney, sem heldur uppá 22ja ára afmælið sitt í dag, gerði eitt markanna í 4:2 sigri United gegn Dynamo í Kiev í gærkvöld og hefur skoraði sex mörk í síðustu sjö leikjunum. Hann og Tévez hafa náð mjög vel saman í framlínu liðsins.

"Þessi framlína er mjög góð og Carlos var stórkostlegur. Vinnusemi hans er mögnuð og hann á frábærar sendingar. Við náum virkilega vel saman og ég vona að það eigi eftir að þróast áfram," sagði Rooney um hinn argentínska samherja sinn sem kom til United frá West Ham í sumar, í samtali við sjónvarpsstöðina ITV.

Stuðningsmenn United eru þegar farnir að bera þá Rooney og Tévez saman við einn magnaðasta sóknardúett félagsins á síðari árum, þá Andy Cole og Dwight Yorke sem voru í Evrópumeistaraliði United árið 1999.

"Það eru nokkrir meiddir hjá okkur sem stendur, það vantar lykilmenn í liðið, en við erum með góðan hóp og vitum að við höfum burði til að vinna Meistaradeildina. Við mætum Kiev aftur eftir tvær vikur og ef við vinnum, erum við komnir áfram í keppninni. Ég vona að við eigum enn eftir að bæta við okkur því við erum komnir á góðan skrið eftir slæma byrjun á tímabilinu," sagði Rooney.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert