Alan Curbishley, knattspyrnustjóri Íslendingafélagsins West Ham, segir að félagið ætli sér að ráða einn mann til viðbótar í yfirstjórn vegna mikilla umsvifa sem framundan séu.
"Við ætlum okkur að byggja nýjan völl og flytja á nýtt æfingasvæði. Vegna þess hve mikið við höfum umleikis er ráðlegt að ráða mann til að hafa yfirumsjón með því öllu. Við ætlum ekki að leita langt yfir skammt en viðkomandi verður með bakgrunn í knattspyrnunni," sagði Curbishley við netútgáfu Daily Mail í dag.
Hann sagði að þetta hefði engin áhrif á stjórnun liðsins eða sína stöðu hjá félaginu. "Málefni liðsins verða sem fyrr á minni ábyrgð," sagði Curbishley.