Eggert vill færa leiki til Bandaríkjanna

Eggert Magnússon er hlynntur því að færa leiki frá Englandi …
Eggert Magnússon er hlynntur því að færa leiki frá Englandi til Bandaríkjanna. Reuters

Eggert Magnússon, stjórnarformaður West Ham, er fylgjandi því að valdir leikir í ensku úrvalsdeildinni verði færðir til Bandaríkjanna til þess að ná enn meiri athygli á heimsvísu, og þar í landi. Talsmanni deildarinnar líst ekkert á þessa hugmynd.

Á sunnudaginn kemur verður leikur í amerísku ruðningsdeildinni, NFL, leikinn á Wembley í London. Það verður í fyrsta skipti sem leikur í þeirri deild er spilaður utan Ameríku og Eggert telur að úrvalsdeildin eigi að fara svipaða leið.

"Ég get séð þetta gerast fyrr en síðar, það yrði mjög gott fyrir deildina," hefur BBC eftir Eggerti í morgun.

Talsmaður úrvalsdeildarinnar sagði við BBC að engar slíkar hugmyndir væru í gangi. "Ég sé þetta ekki gerast. Eins og deildin er uppsett, spilað heima og heiman, þá myndi takturinn og trúverðugleikinn riðlast ef fiktað væri í grunnþáttum hennar," sagði talsmaðurinn.

Stan Kroenke, sem á 12,2 prósenta hlut í Arsenal, hefur einnig rætt þennan möguleika, og telur að fjárhagslegur ávinningur yrði svo mikill að úrvalsdeildin gæti ekki hafnað því. "Það eru að mínu mati góðar líkur á að hægt væri að færa leik á þennan hátt því eigendur beggja félaga gætu samþykkt það. Ég tel að svona flutningur sé raunhæfur í náinni framtíð,"  asgði Kroenke.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert