Bellamy líklega úr leik í mánuð

Craig Bellamy hefur verið óheppinn með meiðsli.
Craig Bellamy hefur verið óheppinn með meiðsli. Reuters

Craig Bellamy, leikmaður Íslendingafélagsins West Ham og fyrirliði velska landsliðsins í knattspyrnu, er meiddur enn á ný og horfur á að hann verði frá keppni í mánuð.

Bellamy fór í aðgerð á nára í Þýskalandi fyrir skömmu og var skotfljótur að ná sér eftir hana. Hann tognaði hinsvegar enn á ný á svipuðum slóðum í leik West Ham gegn Portsmouth á laugardaginn.

Alan Curbishley er þar með bara með einn framherja tilbúinn fyrir leik liðsins gegn Coventry í 4. umferð deildabikarsins annað kvöld. Það er Carlton Cole, en auk Bellamys eru þeir Dean Ashton og Bobby Zamora meiddir og Henri Camara má ekki spila með West Ham í keppninni.

"Við þurfum greinilega að hvíla Craig enn á ný og reynum að nýta landsleikjahléið til að fá hann góðan. Þetta er búið að há honum síðan á undirbúningstímabilinu og hann virðist alltaf versna eftir að hafa  farið í landsleiki með Wales," sagði Curbishley.

Það virðast einhver álög á þeim leikmönnum sem Curbishley kaupir til West Ham því auk Bellamys eru Kieron Dyer, Julien Faubert og Scott Parker allir frá keppni og þeir Freddie Ljungberg, Lucas Neill og Calum Davenport verið í meiðslavandræðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert