Íslendingafélagið West Ham komst í kvöld í átta liða úrslit enska deildabikarsins í knattspyrnu með því að sigra 1. deildarlið Coventry á dramatískan hátt, 2:1, á útivelli en Carlton Cole skoraði sigurmarkið á lokasekúndum leiksins.
Coventry átti í fullu tré við úrvalsdeildarfélagið og náði forystunni á 67. mínútu þegar Jay Tabb skoraði með skalla, 1:0. Fjórum mínútum síðar átti Luis Boa Morte skot að marki Coventry og varnarmaður sendi boltann viðstöðulaust í eigið mark, 1:1.
Það var svo komin hálf þriðja mínúta framyfir leiktímann þegar Carlton Cole nýtti sér varnarmistök, komst einn gegn markverði Coventry og skoraði sigurmarkið, 2:1.