José Maria del Nido, forseti spænska knattspyrnufélagsins Sevilla, hefur tilkynnt forráðamönnum Tottenham það berum orðum að þeir eigi ekki möguleika á að fá neinn leikmann frá félaginu. Það þýði ekkert fyrir Juande Ramos, sem yfirgaf Sevilla á dögunum til að taka við stjórn Tottenham, að reyna að krækja í þá Freddie Kanoute og Daniel Alves.
José Maria del Nido, forseti spænska knattspyrnufélagsins Sevilla, hefur tilkynnt forráðamönnum Tottenham það berum orðum að þeir eigi ekki möguleika á að fá neinn leikmann frá félaginu. Það þýði ekkert fyrir Juande Ramos, sem yfirgaf Sevilla á dögunum til að taka við stjórn Tottenham, að reyna að krækja í þá Freddie Kanoute og Daniel Alves.
Í samningum beggja leikmanna eru ákvæði um að þeir geti farið frá félaginu á samningstímanum ef félag er tilbúið til að greiða 60 milljónir punda.
"Ef Tottenham vill kaupa þá um áramótin, þurfa þeir að greiða samkvæmt því, og ég efast stórlega um að félagið hafi efni á því. Tottenham mun fá þau svör frá Sevilla sem enska félagið verðskuldar eftir framkomu sína við okkur.
Ensku félögin, sem virðast alltaf vera að reyna að krækja í okkar menn, ættu að vita það nú að þegar við viljum halda leikmönnum, þá höldum við þeim. Ég fullvissa ykkur um að við hjá Sevilla setjum alla okkar orku og metnað í að Tottenham fái að gjalda fyrir framkomu sína í okkar garð og þær ólöglegu aðferðir sem félagið beitti. Hér á Spáni eiga menn ekki að venjast því að svik og prettir líðist í samskiptum félaga. Svona nokkuð gerist hvergi annars staðar og ég læt Tottenham og stuðningsmenn félagsins um að horfa í spegil og meta eigin hegðun," sagði del Nido, en það sýður enn á honum eftir að hafa misst Ramos til London.