Í kvöld lauk sextán liða úrslitum ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu og þar eru mörg öflug lið komin áfram. Chelsea var þó hársbreidd frá því að falla úr keppni, liðið var undir á heimavelli, 2:3, gegn Leicester þar til í blálokin þegar Andriy Shevchenko skoraði tvívegis og tryggði liðinu sigur, 4:3.
West Ham, Chelsea, Arsenal, Liverpool, Tottenham, Manchester City, Everton og Blackburn eru komin í 8-liða úrslitin.
Chelsea - Leicester 4:3 Leik lokið
Gareth McAuley kom Leicester yfir á Stamford Bridge strax á 6. mínútu, 0:1, en Frank Lampard jafnaði fyrir Chelsea á 21. mínútu. Lampard var síðan aftur á ferð, 2:1, á 29. mínútu. Scott Sinclair lagði upp bæði mörkin.
DJ Campbell jafnaði fyrir Leicester, 2:2, á 70. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar kom Carl Cort 1. deildarliðinu yfir, 2:3. Andriy Shevchenko náði að jafna fyrir Chelsea, 3:3, á 87. mínútu. Og þegar allt stefndi í framlengingu skoraði Shevchenko aftur og tryggði Chelsea sigurinn, 4:3.
Lið Chelsea: Cudicini, Ferreira, Ben-Haim, Alex, Belletti, Wright-Phillips, Sidwell, Lampard, Pizarro, Shevchenko, Sinclair.
Luton - Everton 0:1 Leik lokið
Tim Cahill kom Everton yfir á 11. mínútu framlengingar og það reyndist sigurmarkið gegn 2. deildarliðinu.
Portsmouth - Blackburn 1:2 Leik lokið
Benni McCarthy kom Blackburn yfir á 11. mínútu og Morten Gamst Pedersen bætti við marki, 0:2, á 78. mínútu. Nwankwo Kanu minnkaði muninn fyrir Portsmouth í lokin.
Hermann Hreiðarsson var ekki í liði Portsmouth vegna meiðsla.
Sheffield United - Arsenal 0:3 Leik lokið
Eduardo kom Arsenal yfir með glæsilegu skoti á 8. mínútu. Eduardo var svo aftur á ferð á 52. mínútu, 0:2. Denilson bætti við marki á 69. mínútu, 0:3 með hörkuskoti af 20 m færi.
Lið Arsenal: Fabianski, Hoyte, Gilberto, Diarra, Gibbs, Denilson, Diaby, Song, Bendtner, Eduardo, Walcott.
Bolton - Man.City 0:1 Leik lokið
Elano skoraði fyrir City úr vítaspyrnu fjórum mínútum fyrir leikslok.
Liverpool - Cardiff 2:1 Leik lokið
Nabil El Zhar kom Liverpool yfir með miklum þrumufleyg á 48. mínútu. Darren Purse jafnaði fyrir Cardiff, 1:1, á 65. mínútu en Steven Gerrard svaraði mínútu síðar fyrir Liverpool, 2:1.
Gamla Liverpool-hetjan Robbie Fowler var í fremstu víglínu hjá Cardiff.
Lið Liverpool: Itandje, Arbeloa, Aurelio, Carragaher, Hobbs, Gerrard, Leto, Lucas, Babel, Crouch, El Zhar.
Tottenham - Blackpool 2:0 Leik lokið
Robbie Keane kom Tottenham yfir á 18. mínútu og Pascal Chimbonda bætti við marki á 58. mínútu, 2:0.