Robbie Fowler snýr aftur á Anfield í kvöld þegar Liverpool tekur á móti Cardiff í 16-liða úrslitum ensku deildabikarkeppninnar. Fowler yfirgaf Liverpool í vor og gekk til liðs við 1. deildarliðið en hann er í Guða tölu hjá fjölmörgum stuðningsmönnum Liverpool ekki síst hjá The Kop, dyggustu stuðningsmönnum liðsins.
Fowler skoraði 193 mörk á glæsilegum ferli sínum með Liverpool en hann sneri aftur til félagsins eftir viðkomu hjá Leeds og Manchester City. Honum var hins vegar ekki boðinn nýr samningur við Liverpool í vor og ákvað að taka tilboði Cardiff. Hann hefur skorað 6 mörk í 12 leikjum með liðinu.
,,Kannski leyfum við honum að skora glæsilegt mark fyrir framan The Kop en bara ef við verðum komnir með góða stöðu í leiknum. Ég vil sjá hann glaðan fyrir leik en vonsvikinn eftir hann en vonandi verður hann svo markakóngur 1. deildarinnar," sagði Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool.
Meiðsli hafa sett töluvert strik í reikninginn hjá Liverpool og má reikna með því að leikmenn á borð við Lucas, Sebastian Leto, Harry Kewell, Fabio Aurelio og Charles Itandje fái að spreyta sig.