Körfuboltastjarna vill eignast hlut í Tottenham

Steve Nash.
Steve Nash. AP

Steve Nash, sem var valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta 2005 og 2006, hefur áhuga á því að kaupa hlut í Tottenham. Nash hefur verið stuðningsmaður enska úrvalsdeildarliðsins frá því hann var barn. Nash er frá Kanada en hann bjó um tíma í London sem barn og hefur hann frá þeim tíma fylgst náið með félaginu. Damien Comolli yfirmaður íþróttamála hjá Tottenham er góður vinur Nash og í sumar fór körfuboltamaðurinn á fund með forráðamönnum Tottenham.

„Þegar ferli mínum er lokið í NBA-deildinni þá er ég til í að skoða þann möguleika að kaupa hlut í Tottenham og fá að hafa áhrif á rekstur félagsins. Ég hef mikla reynslu og þekkingu á því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í NBA-deildinni og kannski fæ ég tækifæri til þess að miðla af þeirri reynslu hjá Tottenham,“ sagði Nash í gær.

Hann hitti Daniel Levy stjórnarformann Tottenham í ágúst en Nash segir að það hafi ekki verið viðskiptafundur. „Ég fór á leik með Tottenham, hitti vini og kunningja í London. Við töluðum bara um fótbolta en ekki viðskipti,“ sagði Nash við New York Times.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert