Framtíð Frank Lampards hjá Chelsea er enn í óvissu en miðjumaðurinn snjalli, sem skoraði tvö mörk í dramatískum sigri á Leicester í deildabikarnum í gær, hefur enn ekki sest niður með forráðamönnum félagsins og rætt um nýjan samning en samningur hans rennur út eftir 18 mánuði.
,,Frank er liðinu mjög mikilvægur en ég veit lítið um þessi peningamál. Ég veit þó að samningaviðræður eru í gangi og það kemur að því að lausn finnst í þessu máli. Frank vill vera áfram hjá Chelsea og félagið vill halda honum," segir Avram Grant, knattspyrnustjóri Chelsea.
Real Madrid, Barcelona og Juventus eru meðal þeirra liða sem hafa sýnt mikinn áhuga á að fá Lampard í sínar raðir og ekki minnkar áhugi liðanna nú þegar leikmaðurinn virðist vera að komast á flug aftur.
Lampard nálgast nú óðfluga 100 marka klúbbinn hjá Chelsea en eftir þrennuna í gær hefur hann nú skorað 96 mörk fyrir Lundúnaliðið frá því hann gekk í raðir þess árið 2001. Aðeins sjö leikmenn hafa náð að skora 100 mörk eða fleiri fyrir Chelsea en það eru: Bobby Tambling (202), Kerry Dixon (193), Peter Osgood (150), Roy Bentley (150), Jimmy Greaves (132), George Mills (123) og George Hilsdon (107).