Gary Neville, bakvörðurinn reyndi, spilaði í kvöld sinn fyrsta leik eftir að hann meiddist í marsmánuði. Hann lék með varaliði Manchester United gegn Stockport og byrjaði ekki vel því Neville gerði sjálfsmark í leiknum, auk þess sem hann fékk að líta gula spjaldið.
Leikurinn var liður í bikarkeppni Manchester og nágrennis og lauk með stórsigri United, 6:1, svo sjálfsmarkið kom ekki að sök.
Neville meiddist á ökkla í mars og eftir að hafa náð sér af því hafa tognanir í vöðvum gert honum lífið leitt það sem af er þessu keppnistímabili. Hann lék í 56 mínútur í kvöld. Ólíklegt er að Neville verði í leikmannahópi Manchester United í stórleiknum gegn Arsenal um hádegið á laugardag en ágætar líkur á að hann komi inní hópinn fyrir leikinn gegn Dynamo Kiev í Meistaradeild Evrópu í næstu viku.
Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englands, fylgist væntanlega vel með gangi mála hjá Neville næstu daga en hægri bakvörður enska landsliðsins, Micah Richards, sem hefur leyst Neville af hólmi þar, meiddist í leik Manchester City gegn Bolton í vikunni. England mætir Króatíu í undankeppni EM 21. nóvember.