Ráðherra: Laun Terrys eru móðgun við almenning

John Terry er með ágætis laun fyrir að spila fótbolta.
John Terry er með ágætis laun fyrir að spila fótbolta. Reuters

Gerry Sutcliffe, íþróttamálaráðherra Bretlands, segir að launin sem John Terry, fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, fái hjá Chelsea séu móðgun við almenning. Hann sakar jafnframt Manchester United um að fæla venjulegt verkafólk frá knattspyrnunni með of háu miðaverði.

"Ég óska John Terry velfarnaðar en það er hrein svívirða að maður skuli fá 150 þúsund pund í vikulaun," sagði Sutcliffe, en það samsvarar rúmum 18 milljónum króna. "Fólkið á götunni skilur ekki svona tölur. Chelsea er rekið með 250 milljón punda halla (30 milljarðar króna) og það má vera að félagið ráði við það, en þannig er það ekki í raunveruleikanum hjá öðrum. Það er ekki hægt að vera með rekstur uppá 250 milljónir í mínus," sagði Sutcliffe.

Netútgáfur enskra dagblaða skýrðu frá þessum ummælum Sutcliffes í dag og forráðamenn Chelsea hafa, samkvæmt The Guardian, þegar kvartað til ráðuneytisins að hann hafi ekki farið rétt með tölur. Talið er að vikulaun Terrys séu nær því að vera 130 þúsund pund, tæpar 16 milljónir króna, og taprekstur Chelsea á síðasta reikningsári nam um 80 milljónum punda, tæpum 10 milljörðum króna. Félagið skuldar nánast ekkert, þökk sé Roman Abramovich, eiganda þess.

Sutcliffe er stuðningsmaður Manchester United en gagnrýndi félagið harkalega. "Í ár hækkaði Manchester United verð á ársmiðum um 13 prósent, og þar fyrir utan þurfa stuðningsmenn félagsins að kaupa miða sérstaklega á leiki í Evrópukeppni og deildabikarnum. Hættan er sú að fólk snúi baki við íþróttinni og við viljum ekki sjá að fólki sé mismunað," sagði ráðherrann.

Sutcliffe sagði að ríkisstjórnin myndi ekki skipta sér af rekstri knattspyrnunnar með því að setja á launaþak eða eitthvað slíkt, en kvaðst vilja koma fram með holla gagnrýni. Hann kvaðst ætla að ræða málin við framkvæmdastjóra úrvalsdeildarinnar, Richard Scudamore, og framkvæmdastjóra Manchester United, David Gill, á fundum með þeim í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert