Martin Jol fyrrum knattspyrnustjóri Tottenham kennir stefnu forráðamanna liðsins á leikmannamarkaðnum um brotthvarf hans frá félaginu og lélegu gengi þess á leiktíðinni. Jol var sagt upp störfum í síðustu viku og var Spánverjinn Juande Ramos ráðinn í hans stað.
Jol segir að leikmannakaupin sem Damien Comolli yfirmaður knattspyrnumála félagsins stóð fyrir í sumar sé aðalástæða fyrir lélegu gengi liðsins á tímabilinu. Jol segist hafa óskað eftir því að keyptir yrðu tveir öflugir reynsluboltar en í staðinn hafi Tottenham ákveðið að kaupa framherjann Darren Bent frá Charlton fyrir 16 milljónir punda og hina ungu Younes Kaboul og Kevin Prince-Boateng.
,,Mér fannst ekki vera rétt jafnvægi í liðinu með þessum leikmannakaupum og það hefur komið á daginn. Það skrýtna er að nýi knattspyrnustjórinn mun líklega komast að sömu niðurstöðu og ég og í janúar verða þessir tveir leikmenn keyptir sem mér fannst liðinu vanta," segir Jol við breska blaðið The Sun og viðurkennir að samskipti sín og Comolli hafi ekki verið góð.