Mikil spenna fyrir leik Arsenal og Man.Utd.

Arsene Wenger og Sir Alex Ferguson hafa oft tekist á …
Arsene Wenger og Sir Alex Ferguson hafa oft tekist á utan vallar endir báðir miklir keppnismenn. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, og Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, leiða saman hesta sína í ensku úrvalsdeildinni í 34. sinn á morgun þegar liðin eigast við á Emirates Stadium í toppslag deildarinnar.

,,Þetta er stórleikur enda hefur báðum liðum gengið afar vel og allir vilja sjá hvort liðið er betra þessa stundina. Bæði lið hafa spilað mjög góðan og skemmtilegan fótbolta og þetta verður örugglega magnaður leikur," segir Wenger en hans eru ósigraðir í 17 leikjum í röð.

,,Ég reiknaði með því fyrir tímabilið að Arsenal yrði með í baráttunni um titilinn í ár og þessa stundina að minnsta kosti hef ég rétt fyrir mér. Ég sagði að lið Arsenal yrði sterkara án Thierry Henry og ég tel að Wenger hafi gert rétt með að láta hann fara," segir Ferguson.

Wenger hefur nauma forystu í innbyrðisleikjum liðanna en 13 sinnum hafa leikmenn hans fagnað sigri en lærisveinar Fergusons 9 sinnum. Í úrvalsdeildinni standa þeir jafnir að vígi. Báðir hafa unnið 8 leiki og sex sinnum hefur niðurstaðan orðið jafntefli.

Ferguson hefur unnið Englandsmeistaratitilinn 9 sinnum þau 21 ár sem hefur stýrt liðinu en Wenger 3 sinnum þau 11 ár sem hann hefur verið við stjórnvölinn hjá Lundúnaliðinu.

Manchester United og Arsenal eru sigursælustu liðin frá stofnum úrvalsdeildarinnar. United hefur unnið 375 leiki og hlotið samtals 1.258 stig en Arsenal hefur unnið 316 leiki og innbyrt 1.107 stig. Í lið Arsenal vantar á morgun þá Robin van Persie og Phillipe Senderos en hjá United vantar Gary Neville, Mikael Silvestre, Paul Scholes og Park Ji-Sung.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert