Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, upplýsti í dag að hann hefði haft augastað á Carlos Tévez, þáverandi leikmanni West Ham, síðasta vetur. Tévez fór til Manchester United og mætir Wenger og hans mönnum á Emirates-leikvanginum í úrvalsdeildinni á morgun.
Tévez lék frábærlega með West Ham seinni hluta síðasta tímabils og tryggði þá liðinu áframhaldandi sæti í deildinni. Wenger sagði á fréttamannafundi að sig hefði langað til að fá Tévez í sínar raðir en hætt við þegar hann komst að því að Manchester United væri komið á fulla ferð eftir honum.
„Þegar ég sá að Manchester United væri komið í málið ákvað ég að gera ekkert frekar. Ef þeir hefðu ekki komið til, hefði ég reynt að fá hann. En þá tók ég þá ákvörðun að treysta Robin van Persie og Emmanuel Adebayor fyrir því að hefja tímabilið í fremstu víglínu hjá okkur," sagði Wenger, sem augljóslega var með þessari uppljóstrun að svara fyrir fregnir af áhuga United á Adebayor í sumar.
"Ég veit ekki hvort það var rétt, kannski umboðsmaðurinn hans hafi komið þarvið sögu. Adebayor var samningsbundinn okkur, og ég fékk hvort eð er aldrei neina fyrirspurn frá Manchester United um hann. Eftir það framlengdi hann samninginn við okkur," sagði Wenger.