West Ham og Bolton skildu jöfn, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Upton Park í London í dag. George McCartney skoraði fyrir West Ham á 19. mínútu en Kevin Nolan jafnaði metin fyrir Bolton í uppbótartíma.
West Ham er í 11. sæti deildarinnar með 15 stig eftir þessi úrslit en Bolton er í 17. og næstneðsta sæti með 7 stig.
George McCartney kom West Ham yfir á 19. mínútu með fallegu skoti utarlega úr vítateignum eftir þunga pressu að marki Bolton. McCartney kom aftur við sögu fimm mínútum síðar þegar hann bjargaði á marklínu West Ham með skalla. Þetta er einmitt sá sami McCartney og slóst við félaga sinn úr norður-írska landsliðinu á Keflavíkurflugvelli eftir tapið gegn Íslandi í september!
Danny Guthrie var nálægt því að jafna fyrir Bolton á 32. mínútu þegar hann átti hörkuskot í stöngina á marki West Ham.
West Ham var nærri því að bæta við marki á 69. mínútu þegar Carlton Cole komst innfyrir vörn Bolton og átti hörkuskot sem Jussi Jääskeläinen varði vel. Á 73. mínútu skallaði Kevin Davies hárfínt yfir mark West Ham úr dauðafæri eftir frábæra sendingu frá Guthrie.
West Ham slapp fyrir horn í uppbótartíma þegar varnarmaður liðsins bjargaði á marklínu, en þegar komið var framá þriðju mínútu í uppbótartímanum náði Kevin Nolan að jafna metin, 1:1, með skoti af markteig.