Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool segist vera í öruggu starfi þrátt fyrir erfiðleika liðsins í Meistaradeildinni og rólega byrjun í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool tekur á móti tyrkneska liðinu Besiktas í Meistaradeildinni annað kvöld og ekkert nema sigur dugar lærisveinum Benítez til að eygja möguleika á að komast í 16-liða úrslitin.
,,Eigendur Liverpool eru mjög jákvæðir. Þeir hafa sýnt mér mikinn stuðning og framtíðin er björt," sagði Benítez í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, en Spánverjinn stýrði Liverpool til sigurs í Meistaradeildinni árið 2005 og á síðustu leiktíð komst það í úrslit en beið lægri hlut fyrir AC Milan.
Liverpool situr á botni síns riðils í Meistaradeildinni og er í sjöunda sæti í úrvalsdeildinni eftir markalaust jafntefli við Blackburn á laugardaginn. Tap á morgun þýðir að Liverpool á nánast enga möguleika á að komast áfram og það gæti einnig þýtt að liðið komist ekki í UEFA-bikarinn en liðin í 3. sæti fara beint í UEFA-bikarinn.