Hutchings sagt upp störfum hjá Wigan

Chris Hutchings er hættur störfum hjá Wigan.
Chris Hutchings er hættur störfum hjá Wigan. wiganlatics.co.uk

Enska úrvalsdeildarfélagið Wigan Athletic sagði í dag knattspyrnustjóranum Chris Hutchings upp störfum. Liðið er komið í fallsæti úrvalsdeildarinnar eftir ósigur gegn Chelsea á laugardaginn. Hutchings hafði aðeins stýrt liðinu frá því í sumar þegar hann tók við af Paul Jewell.

Í stuttri yfirlýsingu á vef Wigan er lýst yfir gífurlegu þakklæti í garð Hutchings fyrir hans þátt í ótrúlegri uppsveiflu félagsins undanfarin sex ár en hann var þjálfari hjá félaginu um árabil áður en Jewell hætti störfum.

Aðstoðarmaður hans, Frank Barlow, tekur við liðinu til bráðabirgða og stýrir því væntanlega gegn Tottenham á sunnudaginn kemur.

Þetta er í annað sinn sem Hutchings tekur við af Jewell, það sama gerðist hjá Bradford City á sínum tíma, og þá var hann líka rekinn eftir aðeins fimm mánuði í starfi.

Hutchings var sjálfur leikmaður um árabil og lék alls um 550 leiki með Chelsea, Brighton, Huddersfield, Walsall og Rotherham.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert