Leikmenn Reading borga fyrir stuðningsmenn

Ívar Ingimarsson og Nicky Shorey, leikmenn Reading, taka þátt í …
Ívar Ingimarsson og Nicky Shorey, leikmenn Reading, taka þátt í því að niðurgreiða fargjöld stuðningsmanna liðsins. Reuters

Leikmenn enska knattspyrnuliðsins Reading, þar á meðal landsliðsmennirnir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson, hafa ákveðið að niðurgreiða fargjöld fyrir stuðningsmenn liðsins í næsta útileik í úrvalsdeildinni, gegn Manchester City þann 24. nóvember.

Fyrstu 350 stuðningsmennirnir sem bóka ferðina með rútum á vegum félagsins þurfa aðeins að greiða 5 pund fyrir hana, rúmar 600 krónur, í staðinn fyrir 20 pund, tæpar 2.500 krónur.

„Frammistaða okkar að undanförnu hefur verið mjög óstöðug og það hlýtur að vera erfitt að réttlæta það að eyða miklum peningum í að sjá okkur spila þegar þannig gengur. Með þessu viljum við launa stuðningsmönnum okkar, sem hlýtur að hafa liðið illa þegar þeir gengu af velli Portsmouth með 7:4 tap á bakinu. Leikmenn eru alltaf að átta sig betur á því hve dýrt þetta er fyrir fólk, ekki síst fyrir foreldra sem mæta með börnin sín á leikina," sagði Graeme Murty, fyrirliði Reading, við BBC í dag.

"Það vorum við leikmennirnir sem ákváðum þetta, okkur var ekki fyrirskipað það, en okkur fannst rétt að grípa til þessa ráðs. Við berum nokkra ábyrgð á þeim kostnaði sem fylgir því að styðja okkur, og sá kostnaður vegur að rótum fótboltans. Ef málin þróast þannig að venjulegt verkafólk getur ekki fylgst með fótboltanum, er illa komið fyrir íþróttinni," sagði Murty.

Reading hækkaði ekki verð á ársmiðum frá því í fyrra, eins og mörg önnur félög gerðu en liðið var í fyrsta skipti í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og kom þá mjög á óvart með því að enda í 8. sæti. Liðið er núna í 12. sæti deildarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert