Benítez bíður framá síðustu stundu

Fernando Torres gæti tekið þátt í leiknum í kvöld.
Fernando Torres gæti tekið þátt í leiknum í kvöld. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar að bíða framá síðustu stundu með að ákveða hvort Fernando Torres verði með í leiknum gegn Besiktas í Meistaradeild Evrópu á Anfield í kvöld.

Torres er að jafna sig af tognun í kviðvöðva og hefur æft síðustu daga en er mjög tæpur. Liverpool verður að vinna leikinn í kvöld til að eiga möguleika á að komast í 16-liða úrslit keppninnar og það er því mikið undir hjá Benítez.

Hann getur ekki teflt fram Xabi Alonso og Daniel Agger sem eiga 3-4 vikur eftir þar til þeir verða leikfærir. Harry Kewell er hinsvegar í lagi eftir að hafa komið inná í leiknum við Blackburn á laugardaginn en þá hafði hann verið frá keppni lengi vegna nárameiðsla.

Besiktas vann leik liðanna í Tyrklandi á dögunum og Liverpool er þar með bara með eitt stig eftir fyrri umferðina í riðlinum. Marseille er efst með 7 stig, Porto er með 5 stig og Besiktas 3. Liverpool á eftir að spila við Marseille á útivelli og Porto á heimavelli.

Hópurinn hjá Liverpool: Reina, Finnan, Arbeloa, Carragher, Hyypiä, Riise, Aurelio, Kewell, Gerrard, Sissoko, Mascherano, Hobbs, Benayoun, Crouch, Torres, Kuyt, Voronin, Itandje, Babel, Lucas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert