Ferguson samþykkur kvóta á erlenda leikmenn

Hinn skoski Alex Ferguson vill að fleiri Englendingar séu í …
Hinn skoski Alex Ferguson vill að fleiri Englendingar séu í liðunum í ensku úrvalsdeildinni. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, tekur undir orð Sepps Blatters, forseta Alþjóða knattspyrnusambandsins, sem vill setja reglur um fjölda heimamanna í hverju liði. Ferguson styður það að í Englandi þurfi að vera fimm Englendingar í byrjunarliði hverju sinni en segir að Liverpool og Arsenal muni að sjálfsögðu berjast hart gegn því.

„Það yrði enskum fótbolta til framdráttar ef fleiri heimamenn kæmust að hjá toppliðunum. Ég er algjörlega sammála Blatter en það yrði mótstaða gegn þessu frá félögum eins og Liverpool og Arsenal. Það er svo sannarlega ekkert rangt við það að félög væru skikkuð til að vera með ákveðið hlutfall af heimamönnum í sínu liði. En að sjálfsögðu vilja allir verja sitt, sem er sjálfsagt mál, og þess vegna mun Arsenal mótmæla þessu mest," sagði Ferguson í v iðtali við Inside United, tímarit Manchester United.

"Andstæðingar okkar munu segja að við getum trútt um talað, við séum með marga enska leikmenn í okkar liði, en ef hlutlausir aðilar væru spurðir myndu þeir vilja fá fleiri Englendinga í liðin."

Talsmenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa sagt að vegna reglugerða Evrópubandalagsins væri ekki mögulegt að setja slíkan útlendingakvóta á í dag en Ferguson er ekki á sama máli.

"Samkvæmt Rómarsáttmálanum væri ekki hægt að setja þetta í lög en félögin gætu gert með sér samkomulag. Ég er viss um að ef félögin myndu kjósa um þetta, yrði þetta samþykkt, þrátt fyrir mótspyrnu frá Liverpool og Arsenal sem eru með mikið af spænskum og frönskum leikmönnum. Þetta yrði að sjálfsögðu umdeilt en grunnhugsunin í þessu máli er rétt að mínu mati," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert