Peter Kenyon, framkvæmdastjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, segir að frammistaða liðsins eftir að Avram Grant tók við því af José Mourinho í september sé framar öllum vonum. Chelsea hefur unnið átta af tíu leikjum sínum undir stjórn Ísraelans og er komið uppí þriðja sæti úrvalsdeildarinnar eftir slæma byrjun.
"Hann er búinn að vinna sjö leiki í röð, nokkra þeirra mjög stóra. Þeim sem standa sig ber að hrósa og liðið og Avram Grant eiga mikið hrós skilið. Fyrir fimm til sex vikum afskrifuðu flestir okkur en eftir leiki laugardagsins erum við í þriðja sæti, þremur stigum á eftir toppliðinu Arsenal," sagði Kenyon við BBC.
Mikið hefur verið rætt og ritað um að Grant sé aðeins með liðið til bráðabirgða, á meðan leitað sé að stærra nafni til að taka við liðinu. Kenyon sagði að þetta væri allt saman opið.
"Við höfum ekki sett okkur nein tímamörk því aðalmálið er að Chelsea gangi vel," sagði Kenyon.