Hjá Manchester United er nú unnið að skýrslugerð um framkomu áhorfenda á Emirates-leikvanginum í London síðasta laugardag þegar liðið gerði þar jafntefli, 2:2, við Arsenal. Alex Ferguson, knattspyrnustjóri, segir að hann og starfslið sitt hafi verið í hættu á varamannabekknum vegna ofsafenginnar framkomu áhorfenda sem voru staðsettir rétt fyrir aftan þá.
„Öryggisverðir okkar eru að taka saman skýrsluna, þetta gerðist beint fyirr aftan okkur en ég er viss um að Arsenal getur séð þetta nákvæmlega í sínum öryggismyndavélum," sagði Ferguson í gær.
Eftir leikinn á laugardaginn sagði hann að óvinveitt andrúmsloftið á Emirates hefði án efa haft sitt að segja um að Howard Webb dómari hefði verið hliðhollur Arsenal í leiknum. Enska knattspyrnusambandið er með þau ummæli hans til skoðunar.
Talsmaður Arsenal sagði við BBC að gífurleg áhersla væri lögð á öryggismál vallarins. "Við teljum að það sé meira en nóg gæsla í kringum v aramannabekkina. En við vitum að það koma upp atvik þar sem ofsafengin framkoma á í hlut og það var einn áhorfandi fjarlægður af þessu svæði í leiknum á laugardaginn. Við erum líka með öryggismyndavélar á svæðinu og myndir úr þeim eru skoðaðar grannt eftir leikina. Félagið mun grípa til ráðstafana ef þurfa þykir," sagði talsmaður Arsenal.