Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, svarar ummælum Alex Fergusons, kollega síns hjá Manchester United um kvóta á erlenda leikmenn í ensku úrvalsdeildinni, á þann veg að hann velji sitt lið samkvæmt hæfileikum, ekki samkvæmt vegabréfi.
Ferguson tók í gær undir með Sepp Blatter, forseta Alþjóða knattspyrnusambandsins, um að setja þyrfti kvóta á útlendinga, og mælti með því að fimm enskir leikmenn ættu ávallt að vera í byrjunarliði allra liða í ensku úrvalsdeildinni. Reyndar kvaðst hann viss um að kollegar sínir hjá Arsenal og Liverpool væru ekki sama sinnis því þeir byggðu lið sín upp á frönskum og spænskum leikmönnum.
„Í fyrsta lagi er þetta ekki fallega sagt hjá honum, gagnvart eigin erlendu leikmönnum. Ef þið lítið á fjárfestingar Manchester United í ár, þá hafa þeir keypt mikið af erlendum leikmönnum," sagði Wenger við dagblaðið Daily Star.
Hann er aðeins með tvo enska leikmenn í hópi Arsenal, þá Theo Walcott og Justin Hoyte, en hvorugur á fast sæti í byrjunarliðinu. Wenger sagði að leikmenn á borð við þá græddu verulega á samkeppni við sterka, erlenda leikmenn.
„Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að hæfileikar eigi að fá að njóta sín í íþróttinni og þá eigi ekki að fela á bakvið lög og reglur. Ef þú fækkar góðu nemendunum í bekknum, þá verða ekki endilega slöku nemendurnir betri - þeir verða lakari. Þeir sem fá tækifæri til að keppa við bestu leikmenn í heimi, fá um leið tækifæri til að bæta sig," sagði Wenger áður en hann hélt með lið sitt til Tékklands þar sem það mætir Slavia Prag í Meistaradeild Evrópu í kvöld.