Steve Cotterill er hættur störfum sem knattspyrnustjóri enska 1. deildarfélagsins Burnley, sem Jóhannes Karl Guðjónsson leikur með. BBC skýrði frá þessu rétt áðan en blaðamannafundur hefur verið boðaður hjá félaginu klukkan 16.00.
Cotterill tók við Burnley sumarið 2004 en það var einmitt hann sem tók við liði Stoke City af Guðjóni Þórðarsyni vorið 2002. Dvöl hans hjá Stoke var stutt því hann hvarf á braut um haustið og gerðist aðstoðarstjóri hjá Sunderland.
Burnley hefur aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum sínum í 1. deildinni og er í 15. sætinu. Samkvæmt BBC mun aðstoðarstjórinn Steve Davis stýra liðinu þegar það fer til Leicester á laugardaginn.