Elsta knattspyrnufélag heims, enska utandeildafélagið Sheffield FC, heldur í dag uppá 150 ára afmæli sitt með því að spila gegn liði frá Inter Mílanó á Bramall Lane, heimavelli Sheffield United. Mikið er um dýrðir og sjálfur Pelé, brasilíski knattspyrnusnillingurinn, mætir til Sheffield í tilefni dagsins.
Í síðasta mánuði mætti Sepp Blatter, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, í afmæliskvöldverð félagsins og stjórnarformaður Sheffield FC, Richard Tims, sagði við BBC að ljóst væri að endanlega væri búið að staðfesta félagið sem frumkvöðla knattspyrnunnar í heiminum og áhrifavald á þróun íþróttarinnar á fyrstu áratugum hennar.
Sheffield FC var stofnað 24. október 1857. Það hefur aldrei gerst atvinnufélag en leikið í héraðsdeildum og leikur nú í 1. deild á sínu svæði, sem er sjöunda efsta deild í ensku knattspyrnunni.
"Á upphafsárunum var félagið í fararbroddi í skipulagi og þróun knattspyrnunnar og það hafa Blatter og söguritarar knattpyrnunnar nú staðfest. Þetta var ekki bara fyrsta knattspyrnufélagið, heldur kom það með margar nýjungar í leikinn. Þversláin var uppfinning Sheffield FC, hornspyrnurnar og aukaspyrnurnar. Ég segi ekki að án Sehffield FC hefði enginn fótbolti orðið til, en við mótuðum hann í byrjun," sagði Tims.
Hann sagði að félagið hefði ávallt varðveitt hugsjónir áhugamennskurnnar. "Áður en deildakeppnin var stofnuð og atvinnumennskan var tekin upp, var fótboltinn bara leikur, spilaður áhugans vegna. Nú er fótboltinn iðnaður en Sheffield FC tók aldrei þátt í þeirri þróun. Við getum sagt að þetta félag sé samviska fótboltaheimsins sem stjórnast af peningum í dag. Við erum ekki í órafjarlægð frá deildakeppninni og ég myndi ekki útiloka að við ættum eftir að komast þangað, en það er ekki efst á stefnuskránni. En Sheffield FC er orðið að þekktu merki og okkar markmið er að verða uppáhaldslið allra númer tvö. Þó allir styðji sitt félag, get þeir haft okkur í öðru sæti," sagði Tims.