Peter Crouch og Steven Gerrard, leikmenn Liverpool og enska landsliðsins í knattspyrnu, hafa skorað á félaga sinn, Yossi Benayoun, að koma Englendingum til bjargar í undankeppni EM. Benayoun leikur með Ísrael gegn Rússlandi um aðra helgi en vonir Englendinga um að komast áfram í keppninni byggjast á því að Ísraelar taki stig af Rússum.
Nái Rússar ekki að vinna leikinn geta Englendingar náð EM-sætinu með því að sigra Króata á Wembley þann 21. nóvember. Að öðrum kosti nægir Rússum að sigra Andorra þann dag til að vonir Englands séu endanlega úr sögunni.
"Við Stevie höfum hamast í honum og reynt að peppa hann upp fyrir landsleikinn og vonandi hjálpar hann okkur í leiknum þeirra gegn Rússum. Það yrði frábært ef hann yrði hetja í augum allra enskra knattspyrnuáhugamanna, rétt eins og hann er í augum stuðningsmanna Liverpool," sagði Crouch en Benayoun fór hamförum með Liverpool gegn Besiktas í Meistaradeild Evrópu í fyrrakvöld þar sem hann skoraði þrennu og lagði upp tvö mörk að auki.