Steve Coppell, knattspyrnustjóri Íslendingaliðsins Reading, er fylgjandi því að settur verði kvóti á erlenda leikmenn í ensku úrvalsdeildinni. Hann tekur því undir skoðanir Alex Fergusons og Sepps Blatters en er á öndverðum meiði við t.d. þá Arsene Wenger hjá Arsenal og Rafael Benítez hjá Liverpool.
"Ég held að til lengri tíma litið sé hættulegt að hafa engan kvóta. Ég dáist að fótboltanum sem Arsenal spilar, hann er mikið fyrir augað, en fyrst Wenger er búinn að vera hjá félaginu í tíu ár hlýtur hann að geta látið enska leikmenn spila svona fótbolta. Það myndi gagnast enska landsliðinu mikið," sagði Coppell.
Hann hefur á undanförnum árum fengið til sín leikmenn sem ekki komust að hjá Arsenal, svo sem Steve Sidwell og James Harper, og þeir hafa verið lykilmenn hjá Reading en Sidwell er nú hjá Chelsea.
"Það hafa svo margir góðir enskir leikmenn hrökklast frá Arsenal að það sýnir vel hve slæmt kerfið er. Við höfum grætt á því en ég er alltaf með enska landsliðið í huga og tel að það eigi að vera ákveðinn fjöldi enskra leikmanna í hverjum hópi, alla laugardaga. Við erum þó í ensku úrvalsdeildinni. Það yrði að byrja á lágri tölu. Það er sorglegt en satt að það er algengt að fjöldi enskra leikmanna í enskum liðum sé nákvæmlega einn. Það er ekki bara Arsenal sem á í hlut heldur mörg önnur lið.
Öll þessi lið setja mikinn pening í akademíur og unglingastarf hefur verið lengi til staðar. Samt koma ekki margir enskir leikmenn í gegnum það inní liðin hjá stóru félögunum. Það er engin spurning að þetta á eftir að hafa slæm áhrif á enska landsliðið á komandi árum," sagði Coppell.