Wayne Rooney framherji Manchester United var í dag útnefndur leikmaður októbermánaðar í ensku úrvalsdeildinni og Mark Hughes knattspyrnustjóri Blackburn Rovers var valinn stjóri mánaðarsins.
Viðurkenningin hjá Rooney kemur á sama degi og hann meiddist á æfingu með Manchester United í dag og verður hann frá keppn næsta mánuðinn. Rooney fór mikinn í októbermánuði en hann skoraði 4 mörk í þremur leikjum fyrir meistarana.
Mark Hughes, sem fer með lærisveina sína á Old Trafford á sunnudaginn, hefur gert afar góða hluti með Blackburn-liðið en liðið er í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar og er til alls líklegt á tímabilinu. Hann er fyrsti knattspyrnustjórinn hjá Blackburn sem hlítur þessa viðurkenningu frá því Brian Kidd varð fyrir valinu árið 1998.